Skip to main content

Tölvupóstsskilmálar

Um þjónustu og verk sem unnin eru af Nesskip gilda eftir atvikum almennir flutningasamningar með þeim sérákvæðum sem kann að vera samið um, þjónustuskilmálar SVÞ eða aðrir skilmálar sem kann að vera vísað til. Þjónustuskilmála SVÞ er að finna neðar á þessari síðu.

Vinsamlegast athugið að þessi tölvupóstur og viðhengi hans eru eingöngu ætluð þeim sem hann er stílaður á og gæti haldið upplýsingar sem eru trúnaðarmál. Hafið þið fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar tekið við tölvupósti þessum og viðhengjum hans er þess vænst að haft sé tafarlaust samband við okkur og trúnaðar gætt. Óheimilt er að kynna sér efni póstsins eða viðhengja hans, afrita eða dreifa á nokkurn hátt heldur eyða tafarlaust.

Efni tölvupóstsins og viðhengja er alfarið á ábyrgð þess einstaklings sem sendir þau ef þau tengjast ekki starfsemi Nesskip.

SVÞ – Samtök verslunar og Þjónustu Almennir þjónustuskilmálar

“Félagið”, sem er aðili að flutningasviði SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu býður viðskiptamönnum sínum upp á fjölþáttaflutning og flutning frá höfn til hafnar samkvæmt öllum skilmálum, skilyrðum og undanþágum sem fram koma í flutningsskilmálum félagsins, sem eru meðal annars að finna á farmbréfum þess. Jafnframt býður félagið upp á aðra þjónustu, sem ekki fellur innan fjölþáttaflutnings og flutnings frá höfn til hafnar, en um þá þjónustu skulu eftirfarandi almennir þjónustuskilmálar gilda.

1. Skilgreiningar

Í skilmálum þessum skulu eftirfarandi hugtök hafa þessa merkingu:
“Dótturfélög” þýðir önnur félög sem félagið á meirihluta í og/eða fer með meirihluta atkvæða og/eða á að fullu hverju sinni.
“Farmbréf” þýðir farmskírteini og/eða fylgibréf félagsins fyrir fjölþáttaflutning og/eða flutning frá höfn til hafnar.
“Félagið” þýðir eitt af aðildarfélögum flutningasviðs SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu eins og þau eru á hverjum tíma, sem og dótturfélög þeirra.
“SDR” er sú alþjóðlega verðmæliseining sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn notar og skal reikna verðmæliseiningu þessa til íslensks gjaldeyris eftir gengi þess dags er greiðsla fer fram.
“Undirverktaki” þýðir beinir eða óbeinir undirverktakar sem og starfsmenn, umboðsmenn og undirverktakar þeirra.
“Vara” þýðir farmur eða varningur og felur í sér hverskyns umbúðir og gáma sem vöru er pakkað eða safnað í, en með gámi er átt við hverskyns gám, tengivagn, flytjanlegan geymi, fleti eða bretti eða hverskyns sambærilega flutningseiningu, sem notuð er til að halda vörum saman.
“Viðskiptamaður” getur bæði verið einstaklingur og lögpersóna og merkir þann sem pantað hefur eða óskar eftir því við félagið að það inni af hendi tiltekna þjónustu og/eða þann sem félagið veitir þjónustu og/eða þann sem á vöru eða á rétt til eignarhalds á henni svo og þann sem er starfar sem starfs- eða umboðsmaður eða á annan hátt í þágu nefndra aðila og kemur fram fyrir hönd þeirra.
“Þjónusta” þýðir öll verk, eða hluti þeirra, sem félagið tekur að sér fyrir viðskiptamann þar með talið, en þó ekki tæmandi, hvers konar ráðleggingar og/eða upplýsingar, bókun flutnings, for- og áframflutningur með skipum, bifreiðum eða hvers konar öðrum flutningsförum eftir því sem við á, útfylling farmbréfa, talning, flokkun og hleðsla vöru á bretti, plöstun vöru, hleðsla og sjóbúningur í gáma, vörugeymsla, tilfærsla vöru á milli gáma, tilfærsla vöru og/eða gáma í höfnum eða á geymslusvæðum, ástandsskoðun vöru, akstur með vöru frá viðskiptamanni og til viðskiptamanns, gámaleiga, flutningur skipspósts og önnur meðferð skjala, skipaafgreiðsla, losun og lestun skipa, vinna um borð í skipum, tollafgreiðsla, löndun fiskiskipa og öll verk tengd því og hvaða annað verk sem er, sem samið hefur verið um við félagið að það taki að sér. Framangreind upptalning eru dæmi um þau verk sem félagið tekur að sér. Taki félagið að sér önnur verk en nefnd eru hér að framan skulu þau falla undir skilgreiningu þessa.

2. Gildissvið

Skilmálar þessir skulu gilda um hverskonar þjónustu sem félagið eða dótturfélög þess taka að sér fyrir viðskiptamann, hvort sem greitt er fyrir hana eða ekki, að því marki sem slík þjónusta fellur ekki undir flutning samkvæmt farmbréfum félagsins, ófrávíkjanlegum lögum eða öðrum skilmálum félagsins sem sérstaklega hefur verið samið um skriflega að skuli gilda um réttarsamband aðila.
Komi til þess að ósamræmi sé annars vegar á milli skilmála þessara og hins vegar farmbréfa félagsins, ófrávíkjanlegra laga og/eða annarra skriflegra skilmála félagsins, sem sérstaklega hefur verið samið um að gildi um réttarsamband aðila, skulu skilmálar þessir víkja fyrir nefndum skilmálum og lögum.

Skilmálar þessir, þar á meðal undanþágur frá ábyrgð, varnir, réttindi og ábyrgðartakmarkanir, skulu gilda í hverskyns málarekstri gegn félaginu hvort sem krafan byggist á samningi eða skaðabótaskyldum verknaði utan samninga og jafnvel þótt bótaskylda hafi stofnast vegna ásetnings eða stórfellds gáleysis eða höfnun samnings.

3. Þjónusta

Félagið skuldbindur sig til þess að veita þá þjónustu, sem það tekur að sér fyrir
viðskiptamann á eðlilegan og vandvirkan hátt.

4. Ábyrgð félagsins og ábyrgðartími

4.1. Ábyrgð

Félagið ber skaðabótaábyrgð eftir almennum reglum skaðabótaréttar á beinu
tjóni viðskiptamanns, sem rekja má til ásetnings eða stórfellds gáleysis félagsins
eða manna sem það ber ábyrgð á, með þeim undantekningum sem fram koma
í skilmálum þessum. Sönnunarbyrði um skaðabótaábyrgð félagsins hvílir á
þeim sem heldur því fram að félagið beri ábyrgð.

4.2. Upphaf ábyrgðar

Sé um að ræða meðhöndlun vöru eða þjónustu vegna vöru skal upphaf ábyrgðar eftir 4.1. gr. miðast við þann tíma þegar félagið hefur fengið vöru afhenta í vörslur sínar. Í öllum öðrum tilvikum skal upphaf ábyrgðar miðast við þann tíma er viðkomandi þjónusta hófst.

4.3. Lok ábyrgðar

Sé um að ræða meðhöndlun vöru eða þjónustu vegna vöru skal lok ábyrgðar eftir 4.1. gr. miðast við þann tíma þegar vara hefur verið afhent viðskiptamanni eða þegar vöruna bar að afhenda honum. Í öllum öðrum tilvikum skal lok ábyrgðar miðast við þann tíma er viðkomandi þjónustu er lokið.

5. Upphæð bóta og undanþága frá ábyrgð

5.1. Ákvörðun bótafjárhæðar.

Þegar félaginu ber að greiða bætur vegna taps eða skemmda á vöru ber að reikna fjárhæð slíkra bóta eftir verðmæti vörunnar samkvæmt vörureikningi. Liggi verðmæti vörunnar samkvæmt vörureikningi ekki fyrir skulu slíkar bætur reiknaðar eftir verðmæti vöru sömu tegundar og af sömu gæðum þegar tjónið átti sér stað. Sönnunarbyrðin fyrir verðmæti vöru samkvæmt framansögðu hvílir á viðskiptamanni.

Bætur vegna hlutatjóns ber að reikna hlutfallslega, þó þannig að bætur vegna hlutatjóns geta aldrei numið hærri fjárhæð en ef varan hefði orðið fyrir altjóni.

5.2. Tafir og/eða seinkun

Félagið ber ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á beinu, óbeinu eða afleiddu tjóni eða skemmdum sem orsakast vegna tafa eða seinkana. Jafnframt ábyrgist félagið ekki að vörur, skjöl eða annað komi til tiltekins staðar á ákveðnum tíma eða nái sérstökum markaði eða notkun, nema um slíkt hafi sérstaklega verið samið fyrirfram með skriflegum hætti.

5.3. Óbeint eða afleitt tjón.

Félagið ber ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á óbeinu eða afleiddu tjóni eða ágóðatapi. Félagið ber heldur ekki ábyrgð á greiðslu bóta vegna fornmunaverðmætis, tilfinningalegra verðmæta eða annarra sérstakra verðmæta.

5.4. Ábyrgðarleysisástæður

Félagið ber ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á neins konar tjóni sem rekja má til einhverra neðangreindra orsaka:

1. Bruna, sprengingu eða vatnstjóns, nema slíkt verði rakið til stórfellds gáleysis eða ásetnings félagsins eða starfsmanna sem það ber ábyrgð á.
2. Gáleysi eða ásetningi viðskiptamanns eða manna á hans vegum.
3. Meðferð, lestun, losun eða hleðslu vöru t.d. í gám eða á vörubretti, sem viðskiptamaður eða einhver á hans vegum hefur framkvæmt.
4. Bilunum, gangtruflunum, rafmagnsleysi eða öðru því sem leiðir til þess að frystigeymslur, frystigámar, kranar eða önnur tæki félagsins bili eða starfi ekki eðlilega, nema slíkt verði rakið til stórfellds gáleysis eða ásetnings félagsins eða starfsmanna sem það ber ábyrgð á.
5. Röngum eða ófullnægjandi upplýsingum frá viðskiptamanni eða mönnum á hans vegum.
6. Ófullnægjandi eða gölluðum umbúðum eða merkingum á vöru.
7. Stöðvun eða takmörkun vinnuafls, verkföllum eða verkbönnum, hvort sem félagið á hlut að máli eða ekki og hvort sem framangreint er löglegt eða ólöglegt.
8. Alvarlegum ófyrirsjáanlegum atburðum (force majeure), svo sem náttúruhamförum, ófriði, geislavirkni, uppþotum, eða öðrum þeim ytri aðstæðum sem félagið ræður ekki yfir.

5.5. Eigin sök viðskiptamanns

Bætur til viðskiptamanns skal lækka eða fella þær niður ef sannað er að viðskiptamaður eða einhver á hans vegum hefur verið meðvaldur að tjóninu vegna ásetnings eða gáleysis. Auk þess ber viðskiptamanni í öllum tilvikum að takmarka tjón sitt í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar.

5.6. Vextir

Ekki skal koma til greiðslu vaxta af kröfum á hendur félaginu fyrr en frá uppkvaðningu dóms.

6. Ábyrgðartakmörkun

Fjárhæð skaðabóta sem félagið kann að bera ábyrgð á eftir 4-5. gr. skilmála þessara skulu ekki undir neinum kringumstæðum vera hærri en sem hér segir:

6.1. Einstök takmörkun

Sé um að ræða meðhöndlun vöru eða þjónustu vegna vöru geta bætur vegna skemmda eða taps á vöru ekki orðið hærri en sem nemur 2 SDR fyrir hvert kílógramm brúttó þunga vöru sem tapast eða skemmist eða 667 SDR fyrir hvert stykki eða einingu hvort heldur sem hærra reynist. Bæturnar geta þó aldrei orðið hærri en verðmæti vörunnar sbr. 5.1. gr. skilmálanna. Við ákvörðun á því hvað telst vera eitt stykki eða eining, skal miða við það sem fram kemur í kvittun fyrir móttöku vöru eða ef slík kvittun er ekki gefin út, það sem fram kemur í farmbréfi vegna flutnings vörunnar.
Í öllum öðrum tilvikum og þegar ekki er hægt að staðreyna þyngd og/eða stykkjatölu vöru geta bæturnar ekki orðið hærri en sem nemur 7.500 SDR vegna hvers tjóns eða fleiri tjóna viðskiptamanns ef orsök þeirra er sú sama.

6.2. Allsherjar takmörkun

Ábyrgð félagsins gagnvart öllum viðskiptamönnum sínum skal vera takmörkuð við 100.000 SDR vegna allra krafna sem rísa vegna eins og sama atburðar. Heimild til takmörkunar eftir þessari grein skal vera fyrir hendi án tillits til þess á hvaða grundvelli ábyrgðin hvílir. Sérhver fjárhæð, sem sætir takmörkun ábyrgðar samkvæmt þessari grein, skal skiptast milli kröfuhafa að tiltölu við kröfur þeirra.
Ákvæði þetta stendur ekki í vegi fyrir því að 6.1. gr. skilmálanna sé beitt í því skyni að takmarka ábyrgð félagsins gagnavart viðkomandi viðskiptamanni.

7. Tilkynningar um tjón

Viðskiptamaður skal senda félaginu skriflega tilkynning um tjón jafnskjótt og tjónsins verður vart og í síðasta lagi áður en liðnir eru 10 dagar frá því að hann
vissi eða mátti vita um tjónið. Í framangreindri tilkynningu skal koma skýrt fram um hvaða vöru eða þjónustu er að ræða, fjárhæð bótakröfu ef kostur er og ástæðu þess að félaginu er haldið
ábyrgu vegna viðkomandi atviks ef við á. Þá skal viðskiptamaður veita félaginu færi á að skoða vöruna.

Sé ekki tilkynnt um tjón samkvæmt framansögðu skal réttur viðskiptamanns til þess að krefja félagið um bætur vegna atviksins falla niður sökum tómlætis.

8. Þóknun

Viðskiptamaður skal greiða félaginu þóknun fyrir þau verk og þá þjónustu sem félagið veitir viðskiptamanni. Miða skal þóknun og greiðslu hennar við gildandi gjaldskrá félagsins á hverjum tíma ef ekki er um annað samið. Hafi þóknun ekki verið greidd á gjalddaga er félaginu heimilt að krefja viðskiptamann um dráttarvexti frá gjalddaga og kostnað sem kann að falla til vegna innheimtu þóknunar.

9. Haldsréttur og samningsveð

Félagið skal eiga haldsrétt og samningsveð, eftir því sem við á, í öllum vörum, sem eru í vörslum félagsins, vegna allra krafna þess á hendur viðskiptamanni vegna varanna og vegna allra annarra krafna á hendur honum, sem ekki tengjast vörunum á nokkurn hátt. Ef félagið hyggst beita framangreindum haldsrétti eða samningsveði skal það tilkynna viðskiptamanni skriflega um slíkt. Í tilkynningunni skal gera almenna
grein fyrir tilefni viðkomandi aðgerðar ásamt fjárhæð kröfunnar eða samtölu ef um fleiri kröfur er að ræða.
Komi til þess að viðskiptamaður greiði ekki kröfuna í kjölfar framangreindrar tilkynningar er félaginu heimilt að selja vöruna á hvern þann hátt sem félagið telur að sé hagstæðast hverju sinni, á kostnað og áhættu viðskiptamanns og án þess að tilkynna viðskiptamanni það sérstaklega.
Nægi afraksturinn af sölu vörunnar ekki til gera upp kröfuna, á félagið rétt á að fá mismuninn greiddan úr hendi viðskiptamanns ásamt vöxtum og kostnaði.
Verði hins vegar afgangur af sölunni, eftir að búið er að gera upp kröfuna ásamt vöxtum og kostnaði, skal hann greiddur viðskiptamanni.

10. Ábyrgð viðskipamanns

Viðskiptamaður ber skaðabótaábyrgð gagnvart félaginu eftir almennum reglum skaðabótaréttar.
Viðskiptamaður ábyrgist að hann sé eigandi eða rétthafi vöru sem afhent er félaginu eða að hann hafi fullt umboð frá eiganda vörunnar til þess að biðja um tiltekið þjónustu og samþykkja þessa skilmála fyrir hönd eiganda vörunnar.
Viðskiptamaður ber ábyrgð á því að öllum innlendum og erlendum lögum, reglum og hvers konar fyrirmælum yfirvalda varðandi vöruna og þá þjónustu, sem hann óskar eftir að félagið inni af hendi fyrir hann, sé fullnægt eftir því sem við á.
Viðskiptamanni er auk þess sem að framan greinir skylt að bæta og halda félaginu skaðlausu vegna allra afleiðinga þess að:
1. Upplýsingar varðandi vöru voru og/eða annað sem hann gefur félaginu eru rangar, ógreinilegar eða ófullnægjandi.
2. Umbúðir vöru eða merkingar voru lélegar eða ófullnægjandi.
3. Lestun eða hleðslu vöru t.d. á vörubretti eða í gámi, af hálfu viðskiptamanns eða manna á hans vegum var ófullnægjandi.
4. Varan hefur skaðlega eða hættulega eiginleika sem ekki voru tilgreindir sérstaklega.
5. Einhver annar en viðskiptamaður byggir rétt eða heimild á og/eða fari eftir upplýsingum eða ráðleggingum sem félagið hefur veitt viðskipamanni.
6. Félagið hefur verið, án þess að félagið hafi að öðru leyti bakað sér ábyrgð, gert skylt að greiða skatta, tolla eða önnur opinber gjöld.
7. Viðskiptamaður eða menn á hans vegum vanefna og/eða brjóta gegn ákvæðum þessara skilmála.

11. Undirverktakar

Félaginu er heimilt að ráða undirverktaka á hvaða skilmálum sem er til að annast þau störf og þá þjónustu sem félagið tekur að sér gagnvart viðskiptamanni. Allir starfsmenn félagsins og undirverktakar þess eiga rétt á að bera fyrir sig öll ákvæði skilmála þessa, eftir því sem við á, enda gerir félagið samning við viðskiptamann um viðkomandi þjónustu bæði fyrir sína hönd og sem umboðsaðili og fulltrúi slíkra starfsmanna og undirverktaka.

12. Sending tilkynninga

Ef gert er ráð fyrir í skilmálum þessum að annar hvor aðili skuli senda gagnaðila tilkynningu, hverju nafni sem hún nefnist, þá skal hún send af stað með sannanlegum hætti til þess heimilisfangs sem aðilar hafa gefið upp eða lögheimili þeirra, eins og það er skráð þegar tilkynning er send af stað. Sé þess gætt skal tilkynningin hafa þá þýðingu og þau réttaráhrif sem henni er ætlað að hafa, jafnvel þótt hún komi afbökuð, of seint eða alls ekki til viðtakanda.

13. Fyrning kröfu

Undir öllum kringumstæðum skal félagið vera laust undan ábyrgð nema mál sé höfðað innan 1 árs frá þeim tíma sem hér segir:

1. Ef um er að ræða kröfu vegna tjóns eða skemmda á vöru, frá afhendingu vörunnar eða þeim degi er félaginu bar að afhenda viðskiptamanni vöruna .
2. Í öllum öðrum tilvikum, frá þeim degi er viðskiptamaður vissi eða mátti vita um þau atvik sem eru grundvöllur kröfu hans.

14. Lögsaga

Hverskyns deilumál sem upp koma á milli aðila og sem ekki tekst að leysa með samningum skulu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

15. Tryggingar

Félagið tryggir ekki vörur sem eru í vörslum félagsins, dótturfélaga þess eða undirverktaka. Af þeim sökum er viðskiptamanni bent á að tryggja allar vörur gegn hvers kyns tjóni sem hægt er að tryggja gegn.

16. Gildistími

Þessir almennu þjónustuskilmálar SVÞ taka gildi frá og með 1. apríl 2006. SVÞ áskilur sér rétt til þess að breyta þessum skilmálum hvenær sem er og verður tilkynnt um slíkar breytingar áður en þær taka gildi.

Nesskip er leiðandi aðili í umboðsþjónustu við erlend skip sem hafa viðkomu á Íslandi