Skip to main content

Sagan

 

Nesskip ehf. stofnað

Nesskip ehf. var stofnað sem skipafélag 27. janúar 1974 af hópi áhugamanna um skiparekstur og stórflutninga. Guðmundur Ásgeirsson fór fyrir hópi þessum og gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækisins um árabil.

Fyrstu skipin

Fyrsta skip félagsins var stórflutningaskip keypt 1. febrúar á stofnárinu og hlaut það nafnið Suðurland. Ári seinna var skipinu breytt í kæliskip til flutninga á saltfiski til Miðjarðarhafslanda. Annað skip félagsins var keypt árið 1976 og hlaut það nafnið Vesturland. Var það að mestu í flutningum á fiskimjöli frá Íslandi og flutti byggingavörur til landsins. Þriðja skip fyrirtækisins var síðan keypt árið 1977 og hlaut nafnið Ísnes. Fjórða skipið var keypt árið 1979 og hlaut nafnið Selnes. Bæði þessi skip voru sérhæfð stórflutningaskip. Fimmta skip Nesskip var keypt um vorið 1981 og hlaut nafnið Akranes. Burðargeta þess skips var um 7.500 tonn og var skipið þá stærsta skip íslenska kaupskipaflotans. Með tilkomu Akranes í flota Nesskip jukust flutningar fyrirtækisins milli hafna erlendis og er skipið eina skipið sem borið hefur íslenskan fána í skut umhverfis hnöttinn í einni og sömu ferðinni árið 1985.

Aukin umsvif

Með tilkomu Járnblendifélagsins á Grundartanga árið 1974 og kaupum á sérhæfðum stórflutningaskipum í flota Nesskip jukust umsvif fyrirtækisins verulega eftir að það tók að sér flutninga fyrir Járnblendifélagið. Samstarfið við  Járnblendifélagið, nú Elkem Island, hefur alla tíð gengið vel og sér Nesskip enn í dag um þá flutninga að verulegu leyti.

Breyting á eignarhaldi

Árið 2006 varð nokkur breyting á eignarhaldi Nesskip þegar helsti samstarfsaðili fyrirtækisins um áratuga skeið, norska skipafélagið Wilson ASA í Bergen keypti meirihluta hlutafjár í fyrirtækinu. Í framhaldi af þessum kaupum voru skip Nesskip alfarið sameinuð flota norska félagsins sem í dag telur yfir eitt hundrað skip. Nesskip notast því við skip Wilson í stórflutningum til og frá Íslandi eftir því sem þörf krefur hverju sinni.

Aukin starfsemi

Vikur-, salt-, fiskimjöls- og lýsisflutningar hafa lengi verið ríkur þáttur í starfsemi Nesskip auk flutninganna fyrir Elkem Island. Þá hefur útflutningur brotamálma aukist undanfarin ár auk innflutnings á fóðri og áburði. Starfsemi Nesskip hefur aukist jafnt og þétt með árunum þar sem umboðsþjónusta við skip og skipamiðlun hefur, jafnframt flutningastarfseminni, verið vaxandi þáttur í starfsemi fyrirtækisins.

 

Nesskip er leiðandi aðili í umboðsþjónustu við erlend skip sem hafa viðkomu á Íslandi